Nýtt glæsilegt hesthús á Fornusöndum   Prenta 

September 2011:

Nýtt glæsilegt hesthús er risið á Fornusöndum. Í því rúmast ríflega þrjátíu hross, auk þess sem þar er gott rými til að temja og þjálfa innanhúss. Í flokknum myndir hér á heimasíðunni má sjá magnað myndasafn af framkvæmdunum.

Við tilurð nýja hússins véku gamla fjósið og hlaðan á Söndum, sem Fornusandabræður gerðu að hesthúsi þegar þeir keyptu jörðina fyrir 16 árum. Gömlu húsin voru rifin síðastliðið haust og fljótlega hófst undirbúningur að nýja húsinu.  Margir ættingjar og vinir komu að verkinu, sem var að stórum hluta lokið fyrir sumarið. Byggingunni lýkur endanlega á næstu vikum með smávægilegum frágangi. Nýja húsið er 500 fermetrar. Helmingurinn er eiginlegt hesthús, helmingurinn innanhússaðstaða fyrir tamningu og þjálfun. Burðarvirki nýja hússins er úr íslensku límtré og það er klætt með yleiningum. Húsið er bjart og fallegt, með gluggum í þaki, vesturhlið og göflum. Gólf og stíur eru að mestu steypt og stíurnar má vélmoka. Milligerðir smíðuðu meistarar Stjörnublikks úr ryðfríu stáli. Í gólfi reiðskemmunnar er skeljasandur sem gerir hana enn bjartari.