Tvíburar fæddir!   Prenta 

Júlí 2013:

Þau sjaldgæfu tíðindu urðu á Fornusöndum í sumar að tvíburar fæddust, en var kastað hvorum af sinni hryssunni. Þetta eru fósturvísafolöld undan Furu frá Stóru Ásgeirsá og Kletti frá Hvammi. Við frjóvgun urðu til tvíburar, sem settir voru hvor í sína staðgöngumóðurina. Um miðjan júlí fæddust svo sótrauð hryssa sem sennilega verður grá, og brúnskjóttur hestur.  Aðeins eru örfá dæmi til um að þetta hafi gerst og heppnast. Guðmundur Ágúst Pétursson er eigandi Furu, sem í sumar fór aftur í fósturvísaflutning, þar sem stóðhesturinn er Framherji frá Flagbjarnarholti. Guðmundi Ágústi eru fædd tvö önnur folöld í sumar. Hviða frá Skipaskaga kastaði jörpum hesti undan Spuna frá Vesturkoti og Gná frá Forsæti rauðri hryssu undan Mjölni frá Hlemmiskeiði. Gná fer ekki undir hest í sumar, en Hviða hefur fest fang við gæðinginn Hrímni frá Ósi.